Þrívíddarmynd af Hallgerdargötu 20

Fasteignir

Fasteignaumsjón og nýframkvæmdir

Fasteignir Búseta í tölum

Búseti býður upp á fjölbreytt úrval fasteigna

Félagið vinnur að hagsmunum núverandi og verðandi félagsmanna og tryggir umsjón, viðhald, endurnýjun og fjölgun fasteigna með hagkvæmum hætti. Með því að gerast félagsmaður í Búseta geta áhugasamir eignast búseturétt í fjölbreyttri flóru fasteigna sem er að finna í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Íbúðagerðir

Staðsetning íbúða eftir póstnúmerum og sveitarfélögum

Eignasafninu sinnt af alúð

Fjölgun í eignasafni kallar á aukin umsvif. Viðhaldi og endurbótaverkefnum er sinnt af öflugu teymi eignaumsjónar ásamt fjölmörgum traustum verktökum sem Búseti á gott samstarfi við. Starfsmenn eignaumsjónar eru sex talsins.

Íbúaskiptum fylgja jafnan margvísleg viðhaldsverkefni og úttektir auk endurnýjana og verkstjórnar. Mjög hægðist á óskum um sölumeðferð á árinu og framboð endursöluíbúða fækkaði úr 101 í 72 eða um 29%, sem var í takt við kólnun á almenningum markaði. Að sama skapi fækkaði leigusamningum hjá Leigufélagi Búseta úr 35 í 26, sem er um 26% fækkun.

Verkbeiðnir

Þrátt fyrir að hægst hafi á sölu búseturétta milli ára hefur eignasafnið stækkað sem kallar á aukin umsvif. Átak hefur verið gert í eftirfylgni og gagnavinnslu í gæðakerfi eignaumsjóna, sem tryggir rekjanleika upplýsinga og að eftirfylgd verkefna sé í föstum skorðum allt til verkloka. Betri tími hefur gefist til að sinna eignasafninu því þó verkum vegna íbúðaskipta hafi fækkað fjölgaði í öllum öðrum verkþáttum eignaumsjóna. Þá eignaðist Búseti 28 íbúðir í Naustabryggju 9 og 11 sem voru endurnýjaðar frá grunni.

Þróun og nýframkvæmdir

Á árunum 2018-2021 lauk Búseti byggingu 418 nýrra íbúða. Á árunum 2023-2025 munu 109 bætast við eignasafnið.

Hvað skiptir máli þegar Búseti byggir?

Lykilatriði í uppbyggingarverkefnum Búseta er að velja aðferðir og byggingarefni sem standast tímans tönn. Hérlendis er það tiltölulega óvanalegt að byggingaraðili fylgi byggingum eftir sem rekstraraðili en slík er raunin hjá Búseta. Einnig er unnið markvisst að deililausnum og hönnunarútfærslur eru samnýttar og betrumbættar jafnt og þétt milli byggingarverkefna. Því er til staðar sterkur hvati hjá félaginu að byggja hagkvæmt til langs tíma en félagið býr vel að áratuga langri reynslu í rekstri bygginga.

„Í nýbyggingaverkefnum Búseta er kappkostað við að kaupa umhverfisvottaðar og endingagóðar vöru.”

Eitt það mikilvægasta í rekstri húsbygginga er að tryggja góða einangrun, loftgæði og heilnæma innivist en öll þessi atriði fylgjast að. Búseti notar sérstakan öndunardúk milli útveggjaeinangrunar og klæðningar í nýbyggingarverkefnum sínum. Dúkurinn varnar því að raki komist að steypunni sjálfri og dregur úr líkum á myndun kuldabrúa.

Það skiptir máli að vanda valið þegar kemur að innviðum fasteigna. Búseti leitast við að kaupa til nýbyggingaverkefna umhverfisvottaðar og endingargóðar vörur með líftímanálgun að leiðarljósi.