Steinar

Ávarp

Bjarni Þór Þórólfsson

Öruggt húsnæði forsenda velferðar

Húsnæðisöryggi er ein mikilvægasta forsenda velferðar hverrar fjölskyldu. Meginmarkmið Búseta er að byggja, reka og viðhalda íbúðarhúsnæði til langs tíma í þágu sinna félagsmanna. Félagið leggur sig fram um að sjá félagsmönnum fyrir hentugu húsnæði sem mætir ólíkum þörfum fólks, efnum og aðstæðum.

Eftirspurnin eftir íbúðum Búseta er enda mikil, hvort sem um er að ræða nýbyggingarverkefni eða endursölu búseturétta. Fjölbreytta flóru fasteigna er að finna á vegum Búseta í öllum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eftir 40 ára starfsemi, en félagið fagnar stórafmæli á árinu 2023.

Búseti og fasteignamarkaðurinn

Í rekstri Búseta er lögð rík áhersla á umhverfisvitund og sjálfbærni og vekja nýbyggingar Búseta gjarnan athygli fyrir hönnun og vandað efnisval. Félagið leggur áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma og hefur Búseti á síðustu árum staðið fyrir umtalsverðri fjölgun fasteigna á höfuðborgarsvæðinu. Í júní á þessu ári mun félagið afhenda 20 nýjar íbúðir við Maríugötu í Urriðaholti í Garðabæ. Auk þess standa nú yfir framkvæmdir við Hallgerðargötu 20 í Reykjavík þar sem félagið byggir 42 íbúðir í glæsilegu tvískiptu húsi með bílageymslu. Þá hefjast framkvæmdir innan skamms við Eirhöfða þar sem félagið mun byggja 47 íbúða hús á spennandi uppbyggingarsvæði á Höfðanum í Reykjavík.

Búseti hefur á síðustu árum staðið fyrir umtalsverðri fjölgun fasteigna á höfuðborgarsvæðinu

Á íslenskum fasteignamarkaði hefur almennt litið reynst erfitt að feta braut jafnvægis. Ýktar sveiflur eins og þær sem hafa birst okkur síðustu misserin eru dýrkeyptar og oftar en ekki skortir langtímahugsun. Reynt er að hafa áhrif á stöðuna með hækkun stýrivaxta ásamt reglum um hámark veðsetningarhlutfalls og greiðslubyrðar fasteignalána. Þannig leitast Seðlabankinn við að tryggja stöðugleika á fasteignamarkaði. Mikilvægur þáttur í lausn vandans er þó ekki síst aukið framboð á lóðum. Ýmsir hafa á það bent að flöskuhálsinn hefur legið í skorti á framboði lóða og hafa sum sveitarfélög haldið að sér höndum í þessum efnum. Aðgerðir Seðlabankans hafa áhrif á eftirspurnina en framboðshliðin er í raun stór hluti vandans. Skortur á framboði íbúðarhúsnæðis hefur m.ö.o. verið vandamál og stuðlað að áframhaldandi ójafnvægi um leið og verði er þrýst upp. Þetta skapar áhættu og vandamál sem við höfum séð kristallast síðustu misserin.

Þegar fasteignamarkaðurinn þróast eins og sést hefur myndast mikil eftirspurn eftir búseturéttum. Það er svo að félagið hefur vart undan að fjölga íbúðum í safni sínu til að svara ákalli félagsmanna og sækja gjarnan tugir um hverja íbúð. Líkt og árin á undan hækkaði fasteignaverð talsvert á árinu 2022. Bókfært virði eignasafnsins eykst því með hækkandi fasteignamati, sem leiðir til þess að aukinn hagnaður birtist í bókum félagsins eins og árin á undan. Sem fyrr er rétt að minna á að þessi bókfærði hagnaður er fyrst og fremst tölur á blaði.

Samfélagsábyrgð og góðir stjórnarhættir

Á síðasta ári voru í heild seldir hjá félaginu 109 búseturéttir, af þeim 37 í nýjum íbúðum og 72 í eldri íbúðum. Þegar kemur að búsetuþörf leggur Búseti áherslu á að svara þörfum samfélagsins á hverjum tíma fyrir sig. Þess vegna er að finna mikla fjölbreytni í íbúðasamsetningu félagsins eftir fjörtíu ára starfsemi. Byggt á þessu leikur Búseti fjölþætt hlutverk á sviði fasteignamarkaðarins. Félagið hefur reynst fyrstu kaupendum góður kostur og mun leggja rækt við að viðhalda þessari stefnu. Búseti hefur einnig sýnt viðleitni þegar kemur að því að bregðast við breyttum þörfum hvað búsetuform varðar. Fjölskyldustærðir fara minnkandi og á sama tíma eykst fjölbreytnin í fjölskyldumynstrum. Færst hefur í aukana að þeir sem hafa hug á að minnka við sig leiti til Búseta. Til dæmis fólk sem lokið hefur þátttöku á atvinnumarkaði og horfir til minnkandi fjárbindingar.

Góðir stjórnarhættir leggja grunninn að ábyrgri stjórnun og ákvarðanatöku. Eins og fyrri ár hlutu Búseti og Leigufélag Búseta viðurkenningar Creditinfo og Viðskiptablaðsins á árinu 2022. Sjálfbærni og umhverfisvitund ásamt góðum stjórnarháttum eru mikilvægir þættir í starfsemi Búseta. Til að varpa ljósi á þessa þætti í starfsemi félagsins á það samstarf við fyrirtækið Reitun sem metur sjálfbærnistöðu félaga út frá áhættu, stjórnun og árangri hvað varðar umhverfis- félags- og stjórnarhætti (UFS). Reitun hefur framkvæmt UFS-möt á öllum skráðum útgefendum skuldabréfa í íslenskri Kauphöll síðan árið 2020. Niðurstaða slíkra úttekta er meðal þess sem horft er til við skuldabréfaútboð, t.d. meðal lífeyrissjóða sem vilja eiga samstarf við félög sem stíga fram með samfélagslega ábyrgum hætti. Búseti hefur viðhaldið góðri einkunn í niðurstöðum Reitunar 77 stig sem er vel fyrir ofan meðaltal þegar niðurstaðan er borin saman við aðra útgefendur skuldabréfa. Í samræmi við lög um húsnæðissamvinnufélög lét Búseti vinna ýtarlega úttekt á árinu 2022 um fjárhag og starfsemi félagsins í samstarfi við endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækið Ernst og Young (EY). Niðurstaðan var einkar ánægjuleg fyrir félagið sem varpaði ljósi á mikinn styrk þess og góða stjórnarhætti.

Hjá Búseta er lögð áhersla á varfærni og nákvæma áætlanagerð um leið og unnið er að fjölgun vandaðra íbúða í anda stefnu og markmiða félagsins

Á árinu 2022 stóð Búseti fyrir talsverðum endurbótum og viðhaldi á eignasafni sínu. Þessi verkefni voru í traustum höndum teymis eignaumsjónar félagsins sem á gott samstarf við fjölbreyttan hóp verktaka. Samlegðaráhrif er lykilhugtak í öllum rekstri Búseta og er auðlindum ráðstafað af skynsemi með hagsmuni félagsmanna að leiðarljósi. Hjá Búseta er lögð áhersla á varfærni og nákvæma áætlanagerð um leið og unnið er að fjölgun vandaðra íbúða í anda stefnu og markmiða félagsins. Félagið stendur traustum fótum og hefur á liðnum árum vaxið um leið og stoðir hafa styrkst. Þetta byggir ekki síst á öflugri liðsheild og traustum mannauði og það ber að þakka. Búseti býður upp á mikilvæga leið á húsnæðismarkaði þar sem félagsmönnum býðst stöðugleiki og öryggi á síbreytilegum fasteignamarkaði.

Bjarni Þór Þórólfsson
framkvæmdastjóri